Hvað kostar svefnleysi?
Rannsóknir benda til þess meira en þriðjungur fullorðinna þjáist af svefnleysi einhvern tíma um ævina. Svefntími fólks er jafnframt að styttast og nýlegar tölur benda til þess að rúmlega þriðjungur íslendinga sofi minna en sex klukkustundir á nóttu að meðaltali. Svefn hefur áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu okkar en eftir einungis eina svefnlitla nótt mælast auknar bólgur í líkama okkar. Langvarandi svefnleysi veikir í okkur ónæmiskerfið og eykur t.d. líkur á sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum og langvarandi verkjum. Streita og álag er jafnframt algengur undanfari þess að sofa illa en ef við erum illa hvíld í langan tíma þá er okkur hættara við því að þróa með okkur geðrænan vanda, líkt og þunglyndi eða kvíða. Samband svefnleysis og veikinda er því vel þekkt.
Ómeðhöndlaður svefnvandi dregur úr framleiðni í vinnu og fjölgar veikindadögum. Niðurstöður America Insomnia Survey sýndu fram á að framleiðslutap vegna fjarvista starfsmanna sem þjást af svefnleysi, nemur um 60 milljónum Bandaríkjadala á ári sem jafngildir um níu þúsund milljörðum íslenskra króna. Viðamiklar rannsóknir á Norðurlandabúum sýndu jafnframt fram á að þeir sem annað hvort þjást af langvarandi svefnvanda eða sofa of stutt að meðaltali taka tvöfalt fleiri veikindadaga á ári en aðrir. Starfsmenn sem þjást af svefnleysi væru því 17% ódýrari fyrir vinnuveitanda sinn ef þeir tækju sér jafnmarga veikindadaga á ári og kollegar þeirra.
Einungis ein svefnlítil nótt hefur neikvæð áhrif á athygli okkar, við eigum erfiðara með að einbeita okkur og það hægir á viðbragðshraða líkamans. Rannsóknir America Insomnia Survey benda til þess að rekja megi fjórðung vinnuslysa eða mistaka sem gerð eru á vinnustöðum í Bandaríkjunum beint til svefnleysis. Árlegur kostnaður vegna slíkra mistaka er metinn á um 32 milljónir Bandaríkjadala sem jafngildir yfir fjögur þúsund milljörðum íslenskra króna. Enginn annar hópur langvinnra sjúkdóma, sem skoðaður var í sömu rannsókn (meltingarfærasjúkdómar, öndunarfærasjúkdómar, langvinnur verkjavandi, o.fl.) hafði sambærileg tengsl við slys eða mistök á vinnustöðum. Þannig má gera ráð fyrir að samanlagður kostnaður vegna svefnleysis á vinnustöðum (tap á framleiðni og aukin slysahætta) nemi um 90 milljónum Bandaríkjadala á ári.
Nýleg úttekt RAND á svefnvanda í nokkrum OECD löndum (Bandaríkjunum, Kanada, Japan, Þýskalandi og Bretland) benti til þess að heildarkostnaður vegna svefnleysis nemi á bilinu 1,5% til 3,3% af vergri landsframleiðslu landanna árið 2018. Ef við heimfærum það yfir á Ísland þá jafngilda fjárhæðirnar 42 til 92 milljörðum króna af vergri landsframleiðslu Íslands þetta sama ár. Upphæðirnar nema heildartryggingargjaldi allra fyrirtækja á Íslandi á árinu 2020. Fyrir slíkar fjárhæðir væri hægt að tvöfalda opinber fjárlög til allra framhalds- og háskóla á landinu (u.þ.b. 70 milljarðar árið 2020) eða tvöfalda framlög til Landspítalans (u.þ.b. 60 milljarðar árið 2020).
Það er því ekki ofsögum sagt að töluverður efnahagslegur ávinningur yrði af því að draga úr svefnvanda fólks. Það sem mikilvægara er, er að við sæum fram á verulega bætt áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks. Raunin er nefnilega sú að um 70% þeirra sem glíma við svefnleysi gera það ennþá ári síðar og um 50% stríða enn við vandann þremur árum síðar. Því er ljóst að svefnleysi er langvarandi vandi sem er mikilvægt að bregðast við eins fljótt og auðið er. Með aukinni fræðslu og bættum svefnvenjum má vinna gegn því að vægur svefnvandi þróist yfir í langvinnt svefnleysi. Að sama skapi hefur aukin þekking forvarnargildi og stuðlar að því að fólk tileinki sér góðar og hjálplegar svefnvenjur til langframa.
Við langvinnum svefnvanda mæla klínískar leiðbeiningar Landlæknis með hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi. Rannsóknir á árangri hérlendis sýna að 70-90% fólks nær að vinna bug á svefnvanda sínum með meðferðinni og það sem er ekki síður mikilvægt er að árangurinn mælist langvarandi. Þrátt fyrir þetta sýna rannsóknir að fyrsta úrræði flestra þeirra sem glíma við svefnleysi sé inntaka svefnlyfja og eiga Íslendingar heimsmet í notkun þeirra miðað við höfðatölu. Rannsóknir sýna aftur á móti að svefnlyf eru illa til þess fallin að vinna á klínísku svefnleysi en langtímanotkun þeirra getur haft neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu og dregið úr svefngæðum. Það er því mikilvægt að við bregðumst við þeirri samfélagsvá sem svefnleysi er, aukum fræðslu og þekkingu um vandann og veitum fólki sem við hann glímir bestu meðferð sem völ er á.