Góð ráð fyrir svefn um jólin
Góð ráð fyrir svefn um jólin
Nú eru jólin að ganga í garð og flestir að sigla inní langþráð jólafrí. Jólaundirbúningur með tilheyrandi stressi og spenningi ásamt því að daglega rútínan breytist getur gert það að verkum að óregla kemur á svefnmynstrið okkar. Óreglulegt svefnmynstur getur valdið því að við fáum ekki nægilegan góðan svefn yfir nóttina, sem veldur þreytu og gerir okkur viðkvæmari fyrir streitu og álagi.
Hér eru nokkur hagnýt ráð um hvernig best er að halda reglu á svefninum um jólin:
- Ekki snúa sólahringnum við! Reyndu að fara alltaf á svipuðum tíma í rúmið og svipuðum tímum fram úr. Klukkutími til og frá er allt í lagi en reyndu þó að hafa það ekki mikið meira en það. Með þessu ertu að stilla dægursveiflu líkamans.
- Ekki taka þér kríur yfir daginn, sérstaklega ekki eftir hádegi, það gerir það að verkum að það verður erfiðara að sofna um kvöldið.
- Passaðu áfengisneysluna fyrir svefninn. Áfengisneysla fyrir svefn gerir það að verkum að við sofum grunnt og hvílumst ekki nægilega yfir nóttina.
- Reyndu að halda konfekti og smákökuáti á kvöldin í skorðum, sykurneysla á kvöldin veldur því að það er erfiðara fyrir okkur að sofna.
- Reyndu að klára jólaþrifin og önnur húsverk snemma kvölds. Líkami og hugur þurfa tíma til að komast í ró áður en farið er í rúmið.
- Forðist að neyta koffeins, gos eða orkudrykkja sem innihalda koffein eftir hádegi.
- Ekki horfa á jólamyndir eða vera í símanum uppí rúmi, notaðu svefnherbergið einungis fyrir svefn og kynlíf.
- Ekki verja miklum tíma vakandi í rúminu, farðu framúr um leið og þú vaknar á morgnana og lokaðu augunum um leið og þú ferð upp í rúm á kvöldin. Kúrðu frekar frammi í sófa og hafðu kósý þar.
- Ef þú getur ekki sofnað skaltu ekki liggja í rúminu, farðu frekar framúr og gerðu eitthvað róandi frammi, þegar þú finnur síðan fyrir syfju skaltu fara aftur uppí rúm og reyna að sofna.
Með því að fylgja þessum ráðum munt þú koma til með að sofa betur og þá getur þú notið jólanna sem mest í faðmi fjölskyldu og vina.
Við hjá Betri svefn óskum ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.