Sofum betur
Mikilvægi svefns – góður svefn er nauðsynlegur!
Svefn er ein af grunnstoðum almenns heilbrigðis og góður svefn er eitt mikilvægasta tólið sem við höfum til að stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan. Þegar við sofum fara ýmis nauðsynleg ferli líkamans af stað. Líkaminn losar sig til að mynda við eiturefni og endurheimtir líkamlega, hugræna og andlega orku. Heilinn forgangsraðar einnig upplýsingum í minninu og myndun nauðsynlegra vaxtarhormóna fer af stað. Góður svefn er því mjög mikilvægur!
Hvað gerist ef ég fæ ekki góðan nætursvefn?
Nætursvefn getur haft gríðarlega mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Hver kannast til að mynda ekki við að styttra sé í pirring þá daga þegar svefninn nóttina á undan var ekki nægilega góður? Eða að meiri líkur séu á að finna fyrir kvíða á daginn þegar nóttin hefur einkennst af svefnleysi? Góður nætursvefn og góð andleg líðan haldast nefnilega oftast í hendur. Langvarandi svefnleysi getur til að mynda leitt til þess að fólk finni fyrir einkennum þunglyndis og er fólk sem glímir við langvarandi svefnleysi mun líklegra til að greinast með þunglyndi seinna á ævinni en þeir sem sofa vel. Langvarandi kvíði og streita eru einnig algengar orsakir svefnleysis og einstaklingar lenda gjarnan í vítahring kvíðahugsana og svefnvanda. Þá er erfiðara að festa svefn af því að líkaminn er fastur í ákveðnu kvíðaástandi sem gerir það að verkum að erfitt er að slaka á. Þannig getur myndast vítahringur þar sem kvíði eykur hættu á svefnleysi, sem á móti eykur svo á kvíðann. Svefninn er því algjör grunnstoð þegar kemur að góðri andlegri líðan.
En svefninn er einnig mikilvægur þáttur þegar kemur að því að viðhalda góðri líkamlegri heilsu. Aukið svefnleysi getur til að mynda brenglað framleiðslu hungurhormóna líkamans, sem gerir það að verkum að við leitum oftar í óhollan og orkuríkan mat og borðum meira til að finna fyrir seddu. Þyngdarstjórnun getur því verið erfið ef við glímum við svefnleysi eða skertan svefn. Aukið svefnleysi getur einnig valdið orkuleysi og úthaldsleysi ásamt því að auka líkur á veikindum og meiðslum, þar sem svefn tryggir líkamanum meðal annars góða hvíld og endurheimt. Með því að fá nægan svefn stuðlum við því að betri líkamlegri heilsu.
Hver er mælikvarðinn á góðan nætursvefn?
Ágætur mælikvarði á það hvort við séum að fá góðan og nægan nætursvefn er hvort við vöknum úthvíld á morgnanna. Einnig skiptir máli að taka tillit til þátta eins og hvort snooze takkinn sé vinsæll, og hvort við finnum til mikillar syfju seinnipart dags eða orkuleysi yfir daginn. Þessi atriði gætu verið til marks um það að nætursvefninn sé ekki nægilega góður.
En hvað getum við gert til að bæta nætursvefninn?
Þegar kemur að því að bæta nætursvefninn er margt sem þarf að huga að. Það eru ótal þættir sem hafa áhrif á það hvernig við sofum, svo það er margt sem hægt er að gera til að að hafa góð áhrif á nætursvefninn. Það sem mestu máli skiptir er að hafa góða rútínu á svefntíma alla daga vikunnar, það er að reyna að fara alltaf á svipuðum tíma að sofa og á svipuðum tíma á fætur á morgnanna er því mikilvægt, líka um helgar. Einnig skiptir máli að reyna að takmarka blunda yfir daginn og að eiga rólega og notalega kvöldrútínu til að koma líkamanum og huganum í ró rétt fyrir svefninn.
Annað sem við getum gert er að reyna að takmarka notkun skjátækja að minnsta kosti 1 – 2 klukkustundum fyrir svefn, þar sem birtan frá skjátækjunum getur komið í veg fyrir að við finnum fyrir syfju. Ef ekki er hægt að hætta notkun skjátækja alveg er til að mynda hægt að minnka skjábirtuna og takmarka bláu birtuna sem stafar frá tækinu. Góð hreyfing stuðlar einnig að betri nætursvefni, því getur haft góð áhrif að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi. Að auki hefur neysla á koffíni áhrif á gæði nætursvefns og því ætti eftir fremsta megni að reyna að takmarka neyslu koffíns eftir klukkan 14 á daginn.
Öll þessi skref skipta máli og gott er að hafa í huga að litlar breytingar geta haft mikil áhrif. Einnig er mikilvægt að muna að það er eðlilegt að sofa illa annað slagið og vera stundum þreyttur á daginn. Því er mikilvægt að reyna að láta ekki eina slæma nótt valda okkur of miklum áhyggjum.