ADHD og svefn
Hvað er ADHD?
Athyglisbrestur og ofvirkni (ADHD) er taugaþroskaröskun, sem getur t.d. haft áhrif á vinnu, nám og félagslíf. Algengi röskunarinnar er um 5% hjá börnum og unglingum, en fylgir einnig mörgum fram á fullorðinsár. Röskunin skýrist að mestu leyti af genum, þar sem ekkert eitt gen veldur þessu ástandi, heldur mörg gen sem saman valda því að taugaþroski er frábrugðinn hefðbundnum taugaþroska. En þó hafa utanaðkomandi þættir, eins og svefnvandamál, einnig áhrif á einkenni ADHD sem eru t.d. einbeitingarskortur, ofvirkni, hvatvísi og fleira.
ADHD einkenni birtast á mismunandi hátt hjá fólki, en röskuninni er gjarnan skipt í þrjá flokka. Þessir flokkar eru; ADHD blönduð mynd – Einstaklingur sýnir bæði athyglisbrest og ofvirkni einkenni, sem er algengasti flokkurinn; ADHD aðallega ofvirkni – Algengt að mjög ungir krakkar falli í þennan flokk; ADHD aðallega athyglisbrestur – Yfirleitt eldri krakkar eða fullorðnir sem fá þessa greiningu.
ADHD og svefnvandamál
Síðustu áratugi hafa rannsóknir á ADHD og svefnvandamálum aukist verulega, þar sem algengt er að einstaklingar með ADHD eigi einnig við svefnvandamál að stríða. Sýnt hefur verið fram á að algengt er að einstaklingar með ADHD sofi minna og upplifi almennt verri svefngæði, eigi erfiðara með að vakna á morgnana og upplifa sig ekki ekki eins endurnærða eftir nóttina. Dagsyfja er einnig algengari sem getur haft áhrif á t.d. vinnu, skóla eða félagslíf og getur því haft veruleg áhrif á daglegt líf og líðan einstaklinga.
Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á hærri tíðni kæfisvefns og fótaóeirðar meðal fólks með ADHD, en einnig verri svefnnýtingu (e. sleep efficacy), þ.e. hversu miklum hlutfallslegum tíma einstaklingur sefur af þeim tíma sem eytt er í rúminu. Mörg með ADHD kannast við að eiga erfitt með að sofna og liggja lengi uppí rúmi áður en þau ná að festa svefn. En rannsóknir benda til þess að þetta vandamál sé algengara hjá einstaklingum með ADHD, auk þess að vakna oftar yfir nóttina.
Hvers vegna er fólk með ADHD líklegra til þess að upplifa svefnvandmál?
Það getur verið erfitt að skilja sambandið milli svefnvandamála og ADHD, þar sem svefnvandi getur ýtt undir ADHD einkenni en fjöldi rannsókna hafa einnig sýnt fram á að svefnvandamál séu algengur fylgikvilli ADHD, eða í 25-55% tilvika. Mikilvægt er, við greiningu á ADHD; að ganga úr skugga um að svefnvandi sé ekki einn og sér að ýta undir ADHD einkennin hjá einstaklingi, en slíkt getur leitt til þess að fólk sé ranglega greint sem röskunina. Rannsóknir hafa sýnt að fólk með ADHD upplifir oftar seinkaða dægursveiflu og finnur síður fyrir þreytu á kvöldin þegar komið er að háttatíma, þar sem líkamin losar melatonin seinna. Þessi seinkaða dægursveifla getur aukið líkur á andvöku á kvöldin. Að vera lengi að sofna getur orðið að vítahring, þar sem einstaklingur getur byrjað að tengja svefninn við kvíða vegna þess að hann nær ekki að sofna, og kvíðinn fer þá í kjölfarið að viðhalda vandanum.
Einnig geta ADHD lyf haft áhrif á svefn þó rannsóknir sýni misvísandi niðurstöður, þar sem sumar hafa sýnt að lyfin geti hjálpað sumum að sofa betur með því að meðhöndla ADHD einkennin, en aðrar hafa sýnt að þau geti raskað svefni, þar sem lyfið er örvandi. Mikilvægt er fyrir þau sem eru á ADHD-lyfjum að taka lyfið í samráði við fyrirmæli læknis, þar sem yfirleitt er mælt með að taka það fyrripart dags.
Börn og unglingar með ADHD
Margar rannsóknir á sambandi ADHD og svefns meðal barna, sýna að algengt er að börn með ADHD sofi verr en önnur börn. Svefn er mjög mikilvægur fyrir vöxt og þroska barna og svefninn er ekki síður mikilvægur fyrir börn með ADHD, þar sem svefnleysi getur ýtt undir einkenni eins og hegðunarvandamál, ofvirkni og fleira. Það er því mjög mikilvægt að meðhöndla svefnvanda hjá börnum með ADHD og æskilegt er að byrja á hugrænni atferlismeðferð við svefnvanda frekar en lyfjum.
ADHD hjá fullorðnum
Mun fleiri rannsóknir hafa verið gerðar á svefnvandamálum barna með ADHD en meðal fullorðinna.
Áður var talið að ADHD væri röskun sem einungis börn kljást við, en nú vitum við að röskunin fylgir þrem af fimm, sem greinast sem börn með ADHD, fram á fullorðinsár. Einkenni ADHD geta þó breyst með aldrinum þar sem athyglisbrestur verður í mörgum tilvikum meira áberandi en ofvirkni hjá fullorðnum. Gleymska, einbeitingarskortur, erfiðleikar með skipulag og fleira eru einkenni sem mörg fullorðin með ADHD kannast við og svefnleysi getur haft neikvæð áhrif á þessi einkenni.
Hvað er hægt að gera?
Rannsóknir á inngripum eins og hugrænni atferlismeðferð þar sálfræðingur aðstoðar skjólstæðing við að temja sér góðar svefnvenjur hafa sýnt góðan árangur, bæði til að bæta svefn en einnig til að draga úr einkennum eins og athyglisbrest og ofvirkni. Einnig er mikilvægt að ef grunur er um vandamál eins og t.d. kæfisvefn eða fótaóeirð að það sé meðhöndlað á viðeigandi hátt. En lífsstílstengdir þættir skipta einnig miklu máli til þess að bæta svefngæði eins og regluleg svefnrútína, hreyfing, heilbrigt mataræði, hófleg neysla áfengis og koffíns en einnig að takmarka skjátíma einum og hálfum til tveimur tímum fyrir svefn, þar sem blá birta getur seinkað melatonin framleiðslu. Einnig getur verið gagnlegt að minnka ljósmagn um einum til tveimur tímum fyrir svefn og koma sér upp róandi kvöldrútinu.
Mörg með ADHD eiga erfitt með að róa hugan á kvöldin og upplifa oft ýmsar tilfinningar og áhyggjur á háttatíma sem trufla svefn. Þá getur verið gagnlegt að finna sér tíma um daginn eða fyrri part kvölds til þess að fara yfir hugsanir og áhyggjur og jafnvel skrifa þær niður. Þá erum við betur tilbúin til þess að leysa ýmis vandamál og vinna með tilfinninga, þar sem framheilinn sem sér um rökhugsun og skynsemi er ekki eins virkur seint á kvöldin. Þá eru meiri líkur á að ná að slaka á seinna um kvöldið þegar búið er að fara yfir þau mál sem hvíla á manni þann dag. Að bæta svefninn er gríðarlega mikilvægur þáttur þegar kemur að því að meðhöndla ADHD, þar sem fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á jákvæð áhrif á daglegt líf, heilsu, andlega líðan og lífsgæði einstaklinga.
Greinar