Alþjóðlegi svefndagurinn, 17. mars 2023
17. mars 2023 er Alþjóðlegi svefndagurinn (World sleep day). Tilgangurinn með þessum degi er að minna á mikilvægi svefns fyrir heilsu, en þemað í ár er einmitt “Svefn er mikilvægur fyrir heilsu”. Svefninn er grunnstoð andlegrar og líkamlegrar heilsu, ásamt góðri næringu og hreyfingu. Því er afar mikilvægt að huga vel að svefninum og tileinka sér góðar svefnvenjur. Í tilefni dagsins minnum við á nokkur mikilvæg svefnráð sem gott er fyrir öll að hafa í huga til að hlúa vel að svefninum.
- Hafðu reglu á svefntímum. Reyndu að fara alltaf á sama tíma í rúmið á kvöldin og á fætur á morgnana, jafnvel þó þú hafir sofnað seint eða sofið lítið nóttina áður. Regla á svefntíma styrkir líkamsklukkuna þína.
- Stundaðu reglubundna hreyfingu. Reglubundin hreyfing eykur svefngæði. Hafðu þó í huga að átakamikil hreyfing mjög seint að kvöldi getur seinkað svefninum.
- Hafðu reglu á matmálstímum því það styrkir líkamsklukkuna þína. Forðast skal þó þungar máltíðir rétt fyrir svefninn og því gott að miða við að borða kvöldmat um fjórum tímum fyrir svefn. Hungur getur þó truflað svefninn og því gæti létt snarl um tveimur tímum fyrir háttatíma verið skynsamlegt. Forðaðstu einnig að drekka mikinn vökva á kvöldin því tíðar salernisferðir á nóttunni trufla svefngæði.
- Neyttu koffeins í hófi. Æskilegt er að sleppa kaffidrykkju eftir klukkan 14.00 á daginn og að forðast einnig aðra koffeindrykki eftir þann tíma, t.d. te, gos- og orkudrykki. Hafðu einnig í huga að það er koffein í súkkulaði.
- Dragðu úr áfengisneyslu. Áfengisneysla á kvöldin veldur grynnri svefni og auknum líkum á að vakna endurtekið yfir nóttina. Hafðu einnig í huga að niktótín hefur truflandi áhrif á svefn og því skaltu forðast nikotínneyslu seint á kvöldin.
- Hafðu síðustu 1-2 klukkustundirnar fyrir svefninn skjálausar. Ekki er æskilegt að vera í skjátækjum alveg fram að háttatíma þar sem það getur dregið úr framleiðslu melatóníns á kvöldin og þar með seinkað syfjunni. Mikilvægt er að koma sér upp rólegri kvöldrútínu og gera líkama og sál tilbúin fyrir svefninn.
- Hafðu hitastig í svefnherberginu sem þægilegast. Of heitt eða of kalt andrúmsloft getur truflað svefninn. Gott er að miða við að hafa hitastigið í svefnherberginu í kringum 16-19°C.
- Ekki reyna að sofna. Ef þú átt erfitt með að sofna er ekki æskilegt að liggja í rúminu tímunum saman og reyna að sofna. Það gerir vandamálið einungis verra. Farðu frekar framúr og gerðu eitthvað rólegt frammi í skamma stund og farðu svo aftur í rúmið þegar þig syfjar á ný.
- Notaðu rúmið eingöngu fyrir svefn og kynlíf. Þetta hjálpar líkama og sál að tengja rúmið og svefnherbergið við syfju, ró og svefn.
- Feldu klukkuna. Það að fylgjast með klukkunni þegar verið er að reyna að sofna getur valdið pirringi, kvíða og gremju sem hefur neikvæð áhrif á svefninn.
- Forðastu blund yfir daginn. Þó það geti verið freistandi að halla sér í smá stund á daginn eftir erfiða nótt þá er það ekki ráðlagt þar sem blundur getur haft neikvæð áhrif á nætursvefninn.
- Ekki taka áhyggjurnar með þér í rúmið. Reyndu að finna þér tíma yfir daginn til þess að fara yfir verkefni næsta dags og hugsa um það sem gæti valdið þér streitu á svefntíma.
- Notaðu sólgleraugu á kvöldin á sumrin. Þegar bjart er á kvöldin skaltu nota sólgleraugu utandyra síðustu tvær klukkustundirnar fyrir svefninn. Ef það er bjart inni hjá þér mælum við líka með því að hafa sólgleraugu innanhúss. Ástæðan fyrir þessu er að heilinn framleiðir ekki svefnhormónið melatónín í birtu en hormónið er ein af lykilástæðum þess að við getum fest svefn.
Við hvetjum ykkur til að setja svefninn í forgang. Í tilefni dagsins bjóðum við 25% afslátt af vefmeðferð Betri svefns við svefnleysi. Afslátturinn gildir út marsmánuð. Notaðu afsláttarkóðann svefndagur23 á greiðslusíðunni. Nánar um vefmeðferðina hér.
Gleðilegan Alþjóðlegan svefndag.