Ofurmenni sem þurfa bara 5 tíma svefn.. eða hvað?
Meðal svefnþörf fullorðinna er um 7 og ½ klukkustund og sveiflur sem nema einni klukkustund til eða frá meðaltalinu teljast eðlilegar. í rannsókn sem Lýðheilsustöð gerði á heilsu og líðan Íslendinga árið 2007 kom í ljós að einungis um þriðjungur fullorðina sefur að staðaldri átta klukkustundir eða lengur á sólarhring. Ennfremur sýndi rannsóknin að um fjórðungur var að sofa sex klukkustundir eða skemur sem myndi flokkast sem alltof stuttur svefn. Ennfremur sögðust rúm 20% karla og 30% kvenna hafa glímt við svefnerfiðleika á síðustu 12 mánuðum. Þessar tölur eru ótrúlegar og spurning hvað veldur því að landinn sefur svo stutt?
Rannsóknir hafa sýnt að meðal svefntími hefur styst þó nokkuð á síðustu 100 árum og líklega eru ástæðurnar margvíslegar. Ljóst er að hraðinn í nútímasamfélagi er mikill og flest erum við umkringd áreitum frá því við vöknum á morgnana og þar til við sofnum á kvöldin. Viðhorf til svefns er stundum svolítið einkennilegt og flestir kannast til dæmis við að vera vakinn með símtali á frídegi um miðjan morgun, ræskja sig og segja eitthvað á þessa leið “vekja mig…. NEI alls ekki, ég var löngu kominn á fætur….!” Við skömmumst okkar fyrir að hafa sofið aðeins lengur en við ætluðum og erum fljót að grípa í hvíta lygi. Við þekkjum öll sögur af atorkufólki og ofurmennum sem segjast einungis þurfa að sofa örfáar klukkustundir á sólarhring en virðast samt koma ótrúlega miklu í verk og finna “aldrei” til þreytu né vanmáttar. Er Ísland fullt af þessum ofurmennum og þurfum við kannski ekki að hafa neinar áhyggjur af því hversu mikið svefninn hefur styst?
Nei, því miður er það ekki svo gott. Það er góð ástæða fyrir því hvers vegna við þurfum að sofa um 7-8 klukkustundir á sólarhring og það er vitað mál að svefninn er lífsnauðsynlegur og þjónar mikilvægu hlutverki fyrir almenna heilsu og líðan. Það er löngu staðfest að svefn hefur gríðarleg áhrif á alla starfsemi líkamans og ef við sofum of stutt að staðaldri er mjög líklegt að það komi niður á heilsu okkar að einhverju leyti. Ónæmiskerfið bælist og líkur á offitu, háþrýstingi og sykursýki aukast svo eitthvað sé nefnt. Tímamótarannsókn sem gerð var árið 1999 sýndi að heilbrigðir sjálfboðaliðar sem sváfu aðeins í fjórar klukkustundir á nóttu, sýndu byrjunareinkenni á sykursýki, eftir aðeins 6 daga af skertum svefni og því ljóst að einungis nokkrar nætur af stuttum svefni geta haft skaðleg áhrif á heilsu.
Við skulum því slökkva á tölvunni, sjónvarpinu og símanum aðeins fyrr en við erum vön og gefa svefninum örlítið meiri tíma – það mun borga sig margfalt og skila okkur meiri orku, gleði og velllíðan. Verum stolt af heilbrigðum svefnvenjum og hættum að spá í ofurmennum sem virðast bara þurfa að sofa í nokkrar klukkustundur á sólarhring!