Svefn kvenna – áhrif breytingaskeiðsins

Svefn er flókið og margslungið fyrirbæri, en svefn er ein af grunnstoðum líkamlegrar og andlegrar heilsu. Svefnvandamál eru þó algeng og benda rannsóknir til þess að um þriðjungur fullorðinna einstaklinga glími við svefntruflanir á einhverjum tímapunkti ævinnar. Konur eru þar í ákveðnum áhættuhópi, en svefn þeirra er að mörgu leyti frábrugðinn svefni karla og það virðist vera svo að með hverju æviskeiði kvenna aukist líkurnar á að þær upplifi einhvers konar svefntruflanir. Það eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á svefn kvenna yfir ævina, líkt og hormónabreytingar sem eiga sér stað þegar stelpur byrja á blæðingum, mánaðarlegar hormónabreytingar í tengslum við tíðahringinn, barneignir og allt sem þeim fylgir og svo ekki síst tíðahvörf og hormónabreytingar í tengslum við þau. 

Á breytingaskeiðinu gengur líkami kvenna í gegnum miklar breytingar sem geta haft víðtæk áhrif á heilsu þeirra og líðan, en breytingar á framleiðslu hormónanna estrógen og prógesterón geta valdið ýmsum andlegum og líkamlegum breytingum. Mismunandi er hvenær konur byrja á breytingaskeiðinu, en meðal aldur tíðahvarfa á Vesturlöndum er í kringum fimmtugsaldurinn. Með minnkandi hormónaframleiðslu eggjastokkanna verða konur varar við ýmsar breytingar og einkenni tíðahvarfa, jafnvel áður en blæðingar hætta. Helstu einkenni breytingaskeiðs hjá konum eru svefntruflanir í einhverri mynd, hitakóf og hjartsláttarköst að nóttu og degi til, þreyta og syfja á daginn og kvíða- og þunglyndiseinkenni ásamt spennu og streitueinkennum. Svefntruflanir eru því eitt aðal einkenni breytingaskeiðsins, en um 40 til 60% kvenna á breytingaskeiðinu og eftir að því líkur upplifa einhvers konar truflanir á svefni. 

Svefnvandamálin lýsa sér helst í því að konur vakna oftar upp á næturnar, en rannsókn á tíðni einkenna breytingaskeiðs meðal íslenskra kvenna sýndi til að mynda að 14,8% fimmtugra kvenna á breytingaskeiðinu vöknuðu upp á hverri nóttu og rúmlega 15% vöknuðu upp á nóttunni þrisvar til fimm sinnum í viku. Svefninn verður því mun brotakenndari og órólegri sem getur gert það að verkum að gæði hans skerðast. Einnig er algengt að konur finni fyrir töluverðri þreytu og syfju að degi til og margar lenda einnig í því að vakna of snemma á morgnana. Það geta því orðið töluverðar breytingar á svefnmynstri kvenna þegar þær byrja á breytingaskeiðinu, en rannsóknir hafa þó bent til þess að meiri líkur séu á að upplifa truflanir á svefni á seinni stigum breytingaskeiðsins heldur en í upphafi þess. Og þessi svefnvandamál einangrast ekki aðeins við breytingaskeiðið þar sem stórt hlutfall kvenna, eða um 31% til 42%, þróa með sér krónískan svefnvanda eftir að breytingaskeiðinu líkur. 

Það virðist þó vera að ákveðin einkenni breytingaskeiðsins á borð hitakóf, hjartsláttaróreglu og nætursvita auki líkurnar á að konur glími við svefntruflanir, en því lengur sem einkennin vara yfir nóttina því meiri getur truflunin orðið. Að auki virðast þunglyndis- og kvíðaeinkenni geta haft töluverð áhrif á svefninn og gæði hans, en það er margt sem bendir til að þunglyndiseinkenni færist í aukana þegar konur ganga í gegnum breytingaskeiðið og hafa þau verið tengd við auknar svefntruflanir á þessum tíma. 

Skýringar á auknum svefntruflunum kvenna á breytingaskeiðinu er líklegast að finna í breytingum á hormónastarfsemi þeirra, þó að vissulega sé þörf á fleiri og betri rannsóknum til að staðfesta að hve miklu leyti hormónabreytingar tengjast svefntruflunum með beinum hætti. Hormónið estrógen virðist til að mynda hafa bein áhrif á dægursveifluna, sem stjórnar svefni og vöku og gerir það að verkum að við sofum á næturnar og vökum á daginn. Á breytingaskeiðinu verður töluverð röskun á þessu hormóni og magn þess í líkamanum minnkar, sem getur valdið töluverðum truflunum á svefni. 

Svefn kvenna getur því orðið fyrir töluverðum breytingum á breytingaskeiðingu og eftir það. Það er þó margt sem konur geta gert til að bæta svefn sinn á þessu tímabili og til að koma í veg fyrir krónískan svefnvanda að því loknu. Mikilvægt er að huga að því að halda góðri svefnrútínu til að ýta undir það að auðvelt sé að sofna og að meiri líkur séu á að ná góðum svefngæðum og samfelldum svefni. Einnig getur það haft jákvæð áhrif að huga vel að mataræðinu, stunda reglubundna hreyfingu og að reyna að minnka streitu í daglegu lífi eins mikið og hægt er. Ef einkenni breytingarskeiðs eru mikil og skerða lífsgæði kvenna er mikilvægt að leita ráðlegginga hjá lækni til að meta hvort þörf sé á einhvers konar hormónameðferð, til að bæta lífsgæði og taka á  þeim óþægindum sem geta fylgt hormónabreytingunum. 

Heimildir

Bryndís Benediktsdóttir, Kristinn Tómasson og Þórarinn Gíslason. (2000). Einkenni breytingaskeiðs og meðferð þeirra hjá íslenskum konum, Læknablaðið , 7/8(86), 501-507. 

Boukari, R., Laouafa, S., Ribon-Demars, A., Bairam, A. & Joseph, V. (2017). Ovarian steroids act as respiratory stimulant and antioxidant against the causes and consequences of sleep-apnea in women, Respiratory Physiology & Neurobiology, 239, 46-54. doi:10.1016/j.resp.2017.01.013

Ciano, C., King, T.S., Wright, R.R., Perlis, M. og Sawyer, A.M. (2017). Longitudinal Study of Insomnia Symptoms Among Women During Perimenopause, Journal of Obstetric, Gynecological & Neonatal Nursing, 46(6), 804-813. 

Mallampalim M. P. & Carter, C. L. (2014). Exploring Sex and Gender Defferences in Sleep Health: A Society for Women‘s Health Research Report, Journal of women‘s health, 23(7), 553-562. 

Pengo, M. F. Won, C. H., og Bourjeily, G. (2018). Sleep in women across the lifespan, Contemporary Reviews in Sleep Medicine, 154(1), 196-206. 

Skráðu þig á póstlistann

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur til að fá greinar og góð ráð um svefn ásamt tilboðum frá okkur og samsstarfsaðilum okkar.