Algengar spurningar um Betri svefn

Hvað er hugræn atferlismeðferð við svefnleysi?

Í hugrænni atferlismeðferð er unnið að því að uppræta þann vítahring sem þeir sem glíma við langvarandi svefnleysi eru komnri í. Þetta er gert með því að breyta atferli og hugsunum sem hafa neikvæð áhrif á svefn. Meðferðin felur m.a. í sér fræðslu um svefn, einstaklingsmiðaða svefnráðgjöf, fræðslu um góðar svefnvenjur, slökun og aðstoð við að hætta svefnlyfjanotkun. Skjólstæðingar skrá svefn sinn meðan á meðferð stendur og fá vikulega send ráð sem byggjast á svefnskráningunni. Í þessari meðferð er unnið að rótum svefnleysis og fólki kenndar aðferðir sem gagnast út lífið.

Hversu vel virkar hugræn atferlismeðferð við svefnleysi?

Þegar um langvarandi svefnleysi er að ræða er hugræn atferlismeðferð árangursríkasta úrræði sem völ er á. Meðferðin virkar fljótt og áhrifin eru langvarandi. Þetta hefur verið staðfest í mörgum stórum rannsóknum síðastliðinn áratug. Þessi meðferð bætir svefn hjá um 90% af þeim sem ganga í gegnum hana og stór hluti þeirra sem nota svefnlyf nær að hætta notkun þeirra. Hugræn atferlismeðferð er mun árangursríkari en svefnlyf og meðferðinni fylgja engar aukaverkanir. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum nákvæmlega til að hámarka árangur. Þeir sem ganga í gegnum þessa meðferð verða að vera tilbúnir að breyta venjum sínum og tileinka sér nýjar aðferðir til að takast á við neikvæðar hugsanir.

Get ég farið í þessa meðferð þó ég sé að nota svefnlyf?

Svefnlyfjanotkun er engin fyrirstaða gegn því að þú getir sótt hugræna atferlismeðferð við svefnleysi. Eitt af því sem farið er í gegnum í meðferðinni er hvernig draga má úr svefnlyfjanotkun á árangursríkan hátt. Ef þú ert að nota svefnlyf en samt sem áður að sofa illa er oft árangursríkast að halda svefnlyfjanotkuninni áfram á fyrstu vikum meðferðarinnar og ná að sofa vel með lyfjunum. Þegar það hefur náðst er auðveldara að byrja markvisst að draga úr svefnlyfjanotkuninni. Stór hluti þeirra sem fara í gegnum hugræna atferlismeðferð eru að nota svefnlyf í upphafi en flestir ná að draga úr eða hætta notkuninni á meðan meðferð stendur.

Er möguleiki á niðurgreiðslu frá stéttarfélagi?

Flest stéttarfélög taka þátt í niðurgreiðslu á þjónustu Betri svefns. Hversu mikil niðurgreiðslan er fer eftir um hvaða stéttarfélag er að ræða. Til að fá nánari upplýsingar þarftu að hafa samband við þitt stéttarfélag.